Kvikmyndafræðihópurinn í MR skellti sér á Kóngaveg um daginn, eftir Valdísi Óskarsdóttur. Myndin skartar þeim Gísla Erni Garðarssyni og Daniel Brühl í aðalhlutverkum og öðrum þekktum íslenskum leikurum. Myndin fjallar um Júníor (Gísla) sem kemur heim frá Þýskalandi til að fá meiri pening frá föður sínum. Pabbi hans er fluttur í á 'Kóngaveg' í druslulegu hjólhýsahverfi og lifir á þeim peningum sem hann hefur ólöglega sankað að sér. Þar býr safn misklikkaðaðs fólks, t.d. alkóhólistinn með óléttu kærustuna, hippaparið, sem eyðir öllum dögum reykjandi gras inni í bíl og móðurlausir bræður sem vinna við að rukka fólk fyrir að keyra 'ólöglega' yfir heimagerðu gangbrautina sem er á staðnum.
Við fyrstu sýn lítur myndin virkilega vel út. Leikaravalið er gott, leikstjórinn, valdís Óskardóttir, hefur framleitt góðar myndir og Kóngavegur lítur út fyrir að vera fyndin, (sem hún reyndar er, en .það er ekki nóg í uppistöðu heillar myndar). Hins vegar virðist sem leikstjórinn hafi talið að það að hafa fyndna karaktera með margs konar erfiðleika í nógu absúrd umhverfi, vera nóg til að gera heila mynd. þar sem við höfum mikið rætt um 'rauða þráðinn' í kvikmyndum og hvata aðalpersóna þá finnst mér það algjörlega vanta í þessa mynd. Ég veit að í viðtastímanum sagði Valdís að hún vildi ekki taka týpísku leiðina á þetta og hafa bara eina aðalpersónu í mynd mestalla myndina. Sú pæling er skiljanleg, en það er þó hægt að fara millileið. Sögur eru flestar skifaðar um einn karakter, út af ástæðu. Of mörg og of stór vandamál hjá of mörgum persónum gera myndina ruglingslega. Amk hefði verið betra ef það hefðu verið einhver tengsl eða eitthvað (major) plott í sambandi við aðalpersónuna t.d. í enda myndarinnar. Í stað þess er zikkzakkað á milli lífsvandamála hinna og þessa og ná þau því ekkert til áhorfandans, hann nær ekki að mynda samkennd með persónunum.
Umhverfi myndarinnar finnst mér vera ótrúlega súrt. Það er aðallega af því að það er svo fjári fjarstæðukennt. Valdís sagði að það væru til svona hjólhýsahverfi á íslandi, en ég efast um að þau séu svona ýkt. Mér finnst bestu íslensku kvikmyndirnar endurspegla íslenskt samfélag. Hjólhýsahverfi í líkingu við það í Kóngavegi fannst méreiga betur við bandaríkin eða annað land sem hefur álíka white-trash menningu.
Í viðtalstímanum lýsti valdís því fyrir okkur hvernig þau þurftu að taka alla myndina upp utandyra. Nokkuð vel gert. Maður tekur reyndar eftir því inni í vögnunum hversu þröng skotin eru en það kemur stemmingunni vel til skila.
Ég verð að viðurkenna að ég hafði meira gaman af þessari mynd en t.d. Mömmu Gógó á meðan hún var, en Kóngavegur skilur því miður lítið eftir sig. Maður býst allan tíman við því, fyrir hlé að eitthvað muni gerast sem kemur af stað einhverju í líkingu við söguþráð, en allt kemur fyrir ekki, eftir hlé er maður svo alveg búinn að gefa upp alla von. Leikarar standa sig með prýði og myndin hefur mörg fyndin móment (ælusenan, lagið, selurinn...) en skortur á söguþræði og handahófskennd vandamál persónanna vega of þungt.
Allt í lagi mynd, sem skilur lítið eftir sig. Ég veit ekki einu sinni hvort ég myndi mæla með henni á vídeó.
Fín færsla. Fullt af góðum punktum. 7 stig.
ReplyDelete