Sunday, February 28, 2010

Man bites dog

Ákvað að koma aðeins að nokkrum orðum um þessa mynd, en ég hef nokkuð skiptar skoðanir á henni.

Myndin er mynd um menn sem eru að gera heimildarmynd um aðalpersónuna, sem er siðblindur morðingi. Hljómar undarlega. Ég verð að viðurkenna að það var lúmst gaman af myndinni í byrjun, þar sem afar siðblindur morðingi drepur fólk fyrir framan kameruna eins og ekkert sé venjulegra og lýsir því sem hann gerir í leiðinni. T.d. gabbar hann gamla konu til að hleypa sér inn á ´heimili sitt og fær það snilldarráð að spara skotin þar sem hann tekur eftir að hún sé hjartaveik. Í staðinn bregður hann henni bara svo að hún fær hjartaáfall og hann getur rænt því sem er verðmætt í húsinu.

Eftir því sem líða tók á myndina varð þó sífellt óþægilegra að horfa á hana. Allra grófustu senurnar fannst mér þó þegar hann elti upp lítið barn og kæfði það og svo þegar hann réðst fullur, með tökuliðinu inn á hjón sem voru að gera það, nauðgaði konunni fyrir framan manninn, lét tökuliðið gera hið sama. Þvínæst myrti hann þau bæði.

Ég held að maður þurfi að vera nokkuð sjúkur til að upphugsa þessar senur.

Á hinn bóginn hefði ég vel getað horft á megnið af myndinni með öðru viðhorfi. Meginefni hennar væri þá siðblinda og mjög, mjög svartur húmor. Húmor sem maður skammast sín fyrir að hlæja að.

Að gera mynd sem fjallar um menn sem gera heimildarmynd um morðingja er áhugaverð hugmynd og það færir mann mun nær atburðarásinni. Hins vegar verð ég að segja að ákveðin atriði ganga óþarflega mikið út á það að ganga fram af manni og verða til þess að ég dæmi myndina of mikið út frá þeim.

Afar óþægileg mynd, sem gekk algjörlega fram af manni.

Shutter Island

Ég skellti mér um daginn á Shutter Island í leikstjórn Martin Scorsese. Var búin að heyra að hún væri góð en hún kom heldur betur á óvart.

Myndin fjallar um Teddy Danials, Marsjál, sem heimsækir Shutter Island til þess að hafa uppi á strokufanga eða strokusjúkling öllu heldur.

Ótrúlegt er hvað myndin passar vel saman, hugsað er fyrir minnstu smáatriði. Sérstaklega minnisstætt er atriði sem kunni að líta frekar kjánalega út við fyrsta áhorf, þ.e. þegar Chuck, lögreglufélagi Ted, er beðinn um að afhanda skammbyssuna sína á hann í erfiðleikum með að ná henni. Lítið atriði sem kannski fáir tóki eftir. Þegar kemur í ljós hver Chuck er í raun og veru koma þessi atriði öll heim og saman.

Endurminninngar vefjast inn í söguþráðinn og skil milli þeirra og raunveruleikans verða óskýrar sem myndin líður. Undir lok myndarinnar má deila um það hvernig hún hafi endað.

Ótrúlega flottar tökur í þessari mynd. Allt er notað til að halda manni á tánum. Einnig er yfirlýsing notuð til að lýsa mígrenisköstum aðalpersónunnar, mjög vel gert. Sífelld ofskynjunarköst aðalpersónunnar minna einnig á myndina 8 1/2 sem við horfðum á um daginn, þar sem mörkin milli ímyndunar og veruleiks verða sífellt óskýrari. Í endann smellur samt allt saman.

Það eina sem ég hef mögulega að setja út á myndina er að tónlistin verður helst of yfirgnæfandi í byrjun, en það má líka túlka sem ákveðið stílbragð. Fílaði það betur seinna í myndinni þegar það voru frekar notaðar áhrifamiklar þagnir til að ýta undir taugapennuna, fékk mann til að kippast við við minnstu hluti. Ekki það að myndin hafi á nokkurn hátt verið ógeðsleg (tja.. ok, það má deila um það, en allavega ekkert gore). Það var frekar notuð spennan vegna yfirgnæfandi ógnar sem er sífellt sjaldgæfara að sjá í kvikmyndahúsum nú til dags.

Stórskemmtileg mynd sem ég mæli hiklaust með.