Wednesday, March 31, 2010

Happy End

Um daginn horfðum við á mjög undarlega mynd, hina tékknesku "Happy end". Myndin fjallar um slátrara sem er dæmdur til dauða fyrir að búta konu sína niður vegna framhjáhalds hennar. Myndin er þó öðruvísi en maður býst við. Hún byrjar á því í fyrstu senu er sýnt höfuð manns í líkkistu, þegar zoomað er út sést að það hefur verið höggvið af. Þvínæst skoppar hausinn upp úr kistunni og beint í fallöxi þar sem það festist á búk. Þannig hefst öfug ævisaga slátrarans Bedrich's. Sagt er frá því hvernig hann 'fæðist' fallöxinni, 'útskrifast úr skóla' sem er fangelsið og býr til sína fyrstu konu, þ.e. þegar það er sýnt aftur á bak hvernig hann bútar hana niður. Sú kona reynist algjör skaðræðisgripur og reynir Bedrich m.a. að losa sig við hana með því að henda henni inn í brennandi byggingu (bjarga henni frá eldsvoða-öfugt) eða drekkja henni (bjarga henni frá drukknun-öfugt), en hún reynist vera nærri ódrepandi.

Sögumaður (Bedrich) segir ævisöguna eins og hún sé fullkomlega eðlileg og í réttri tímaröð- þ.e. ósköp venjuleg frásögn þar sem sögumaður finnst t.d. ekkert skrýtið að fólk borði með að gubba út úr sér mat. Með frásögninni eru samtöl persónanna sýnd, en þau eru algjörlega öfugsnúin. Það er best að lýsa því með dæmi (ath að þetta er aðeins dæmi, en ekki nákvæmt samtal úr myndinni)- lesist fyrst niður, svo upp.

"Ok, komum okkur, ég skal drífa mig"
"Eins og engill"
"...Hvernig lít ég út?"
"alveg hrikalega"
"Ertu orðinn svona svangur"
"Drífðu þig, elskan, við erum að verða of sein í mat"

Í öfugri röð má oft skilja samtöl eins og eitthvað annað sé á seyði og ofurvenjulegar spurningar fá oftast heldur furðuleg svör. T.d. eru réttarhöld Bedrich's alveg út í hött þar sem svar Bedrich's við spurningu er alltaf svarið við spurningunni sem var á undan þeirri sem áhorfandinn heyrir.

Þetta er mjög áhugaverð og fyndin mynd og ég get ekki sagt að ég hafi séð neitt í líkingu við hana áður (amk ekki sem tengist avi manns). Hins vegar er maður alltaf að hugsa um setninguna á undann til að fá atriðin til að 'meika sens' og það verður ansi þreytandi eftir ákveðinn tíma. Eftir rúmar 70 mínútur af öfugsnúleika var maður næstum þvi búinn á því og það var léttir að sjá fólk framkvæma hluti í réttri röð aftur. Þó að öfugsnúleikinn venjist að ákveðnu leyti þegar á líður myndina verður hann alltaf svolítið óþægilegur þegar maður reynir að hugsa um "raunverulegu" atburðarásina. Góð mynd og mjög áhugaverð, ég er mjög fegin að við sáum hana, en helst aðeins of löng.

The good heart

Um daginn fórum við á nýjustu mynd Dags Kára, The Good Heart. Töluverð eftirvænting hefur verið þessari mynd og ég leyfði mér að hafa nokkrar væntingar. Myndin stóð undir þeim en fór þó ekki fram úr þeim....

Myndin fjallar um gamlan bareiganda (Jacques) sem, sökum óheilbrigs lífernis, liggur ansi nærri dauðanum. Hann ákveður því aðtaka að sér ungan umrenning (Lucas), sem hann ætlast svo til að taki við barnum að honum látnum. Það gengur misvel vegna þess að lífsskoðanir þeirra stangast algjörlega á. Jacques treystir engum og er afar viðskotaillur við þá sem honum líkar ekki við (sem eru flestir) á meðan Lucas reyndir að vera góður við alla og er löngu búinn að sætta sig við að hann er neðstur í goggunarröðinni hvert sem hann fer. Inn í þetta blandast svo frönsk flugfreyja sem kemur öllu í uppnám með því bókstaflega að troða sér upp á þá tvo.

Sögusvið myndarinnar er áhugavert (skítugur bar í stórborg) og persónurnar eru mjög vel gerðar og áhugaverðar, sérstaklega Jaques sem er það óþolandi að hann hættir eiginlega að vera óþolandi og fer að verða skemmtilegur. Lucas er líka athuglisverður karakter. Sérstaklega góð mynd fékkst af honum þegar hann var aðspjalla við hjúkrunarkonuna á spítalanum eftir misheppnaða sjálfsmorðstilraun "In the battle of the survival of the fittest I simply have to throw in the towel". Aftur á móti fór hin franska Sarah alveg óþolandi. Hún er frek og ætlast til að Lucas geri allt fyrir hana, sem er svosem allt í lagi, en hún verður á svo mótsagnakennd að ég var á tímabili farin að halda að hún væri þroskaheft.

Stíll myndarinnar er skemmtilega drungalegur og passar vel við sögusviðið og persónurnar. Myndatakan var mjög góð og það er greinilegt að Dagur Kári er enginn nýgræðingur í leikstjórn. Mér fannst líka eitthvað við myndina þannig að allt var 'gamalt'. Barinn, hárgreiðslustofan og umhverfið var frekar gamalt og/eða niðurnítt og það passaði vel inn í mydnina.

Aftur á móti finnst mér sagan hafa nokkra stóra galla. í fyrsta lagi fannst mér hún ótrúlega fyrirsjáanleg eftir að Lucas gerist líffæragjafi og Jacques fær hjartaáfall. Við lok myndarinnar þegar Lucas elti öndina út á götu, sat ég bara og beið eftir að hann dæi og þegar það gerðist var það frekar hlægilegt frekar en sorglegt (Lucas þurfti því miður að gefa upp öndina...). Mér fannst einnig samband Söru og Lucas frekar undarlegt. Ég veit að í viðtalstímanum sagði Dagur Kári að hann hefði viljað forðast að gera söguna að einhverri ástarsögu en það var bara eins og Sara væri þarna til að pirra Lucas. Það hefði mátt koma amk eitt skot þar sem farið var aaaðeins dýpra í það, jafnvel þó svo hún hafi kannski bara verið að nota hann. Endirinn er líka pííiínu klisjukenndur. Ekkert svosem við það að sakast, en það hefði gert mikið fyrir myndina að koma með eitthvað aðeins frumlegra þar.

Paprika


Í síðustu viku horfðum við á anime myndina Paprika. Hún er gerð eftir skáldsögu Yasutaka Tsutsui og er í leikstjórn Satoshi Kon. Myndin er með 7,7, á imdb og hefur hlotið mikla athygli og nokkur verðlaun í öðrum löndum en heimalandi sínu, það má teljast nokkuð óvenjulegt fyrir anime mynd.

Satoshi Kon er metnaðarfullur leikstjóri en hann hefur einnig leikstýrt myndiunum Tokyo godfathers og Millenium actress, en báðar er mjög þekktar anime myndir (það verður að teljast afrek að koma þeim út á evrópskan markað sem hefur litla sem enga anime menningu, fyrir utan einstaka hópa).

Sjálf hef ég alltaf haft gaman af anime myndum. Þær geta verið blekkjandi við fyrstu sýn, þar sem flestar teiknimyndir á evrópskum markaði eru frekar einfaldar og gerðar fyrir börn. Anime myndir hafa hins vegar oft margslunginn söguþráð og mun meiri pælingar. Þar sem leikstjórar þeirra eru ekki bundnir af tæknibrellum eða leikurum hafa þeir líka færri takmarkanir hvað varðar sögusvið og atburði.

Paprika er frekar súrrealísk mynd, litrík og lífleg. Hún fjallar, í örstuttu máli, um það þegar tæki, sem notað er til að komast inn í drauma fólks, er stolið. Sá sem stelur því fer að brjótast inn í drauma annars fólk, sem fær það til að missa skynjun á skilum draums og veruleika -> geðbilun og lífsháki út um allt. Á tímum minnti myndin mig á mjög litríka útgáfu af the matrix, þ.s. allt er mögulegt og atburðarásin verður mun skrautlegri en ella.

Að mínu mati er þetta ein skemmtilegasta mynd sem við höfum horft á í vetur. Það ruglaði mig samt í byrjun var hversu mikill munur var á aðalpersónunni og Papriku, hennar annað sjálf, en það skýrðist betur þegar leið á myndina. Það sem mætti helst setja út á myndina er hversu óljóst ástæða "vonda karlsins" kemur fram, en mér fannst eins og lítið sem ekkert væri hintað að því í byrjun. Ég hefði amk haft meira gaman af að geta tengt eitthvað við atburð eða orð fyrr í myndinni.

Aftur á móti hafiði ég virkilega gaman að myndinni og ætla að horfa á hana aftur með brósa næsta föstudagskvöld :)

Sýnishorn úr myndinni:

Kóngavegur

Kvikmyndafræðihópurinn í MR skellti sér á Kóngaveg um daginn, eftir Valdísi Óskarsdóttur. Myndin skartar þeim Gísla Erni Garðarssyni og Daniel Brühl í aðalhlutverkum og öðrum þekktum íslenskum leikurum. Myndin fjallar um Júníor (Gísla) sem kemur heim frá Þýskalandi til að fá meiri pening frá föður sínum. Pabbi hans er fluttur í á 'Kóngaveg' í druslulegu hjólhýsahverfi og lifir á þeim peningum sem hann hefur ólöglega sankað að sér. Þar býr safn misklikkaðaðs fólks, t.d. alkóhólistinn með óléttu kærustuna, hippaparið, sem eyðir öllum dögum reykjandi gras inni í bíl og móðurlausir bræður sem vinna við að rukka fólk fyrir að keyra 'ólöglega' yfir heimagerðu gangbrautina sem er á staðnum.


Við fyrstu sýn lítur myndin virkilega vel út. Leikaravalið er gott, leikstjórinn, valdís Óskardóttir, hefur framleitt góðar myndir og Kóngavegur lítur út fyrir að vera fyndin, (sem hún reyndar er, en .það er ekki nóg í uppistöðu heillar myndar). Hins vegar virðist sem leikstjórinn hafi talið að það að hafa fyndna karaktera með margs konar erfiðleika í nógu absúrd umhverfi, vera nóg til að gera heila mynd. þar sem við höfum mikið rætt um 'rauða þráðinn' í kvikmyndum og hvata aðalpersóna þá finnst mér það algjörlega vanta í þessa mynd. Ég veit að í viðtastímanum sagði Valdís að hún vildi ekki taka týpísku leiðina á þetta og hafa bara eina aðalpersónu í mynd mestalla myndina. Sú pæling er skiljanleg, en það er þó hægt að fara millileið. Sögur eru flestar skifaðar um einn karakter, út af ástæðu. Of mörg og of stór vandamál hjá of mörgum persónum gera myndina ruglingslega. Amk hefði verið betra ef það hefðu verið einhver tengsl eða eitthvað (major) plott í sambandi við aðalpersónuna t.d. í enda myndarinnar. Í stað þess er zikkzakkað á milli lífsvandamála hinna og þessa og ná þau því ekkert til áhorfandans, hann nær ekki að mynda samkennd með persónunum.


Umhverfi myndarinnar finnst mér vera ótrúlega súrt. Það er aðallega af því að það er svo fjári fjarstæðukennt. Valdís sagði að það væru til svona hjólhýsahverfi á íslandi, en ég efast um að þau séu svona ýkt. Mér finnst bestu íslensku kvikmyndirnar endurspegla íslenskt samfélag. Hjólhýsahverfi í líkingu við það í Kóngavegi fannst méreiga betur við bandaríkin eða annað land sem hefur álíka white-trash menningu.


Í viðtalstímanum lýsti valdís því fyrir okkur hvernig þau þurftu að taka alla myndina upp utandyra. Nokkuð vel gert. Maður tekur reyndar eftir því inni í vögnunum hversu þröng skotin eru en það kemur stemmingunni vel til skila.


Ég verð að viðurkenna að ég hafði meira gaman af þessari mynd en t.d. Mömmu Gógó á meðan hún var, en Kóngavegur skilur því miður lítið eftir sig. Maður býst allan tíman við því, fyrir hlé að eitthvað muni gerast sem kemur af stað einhverju í líkingu við söguþráð, en allt kemur fyrir ekki, eftir hlé er maður svo alveg búinn að gefa upp alla von. Leikarar standa sig með prýði og myndin hefur mörg fyndin móment (ælusenan, lagið, selurinn...) en skortur á söguþræði og handahófskennd vandamál persónanna vega of þungt.


Allt í lagi mynd, sem skilur lítið eftir sig. Ég veit ekki einu sinni hvort ég myndi mæla með henni á vídeó.