Sunday, January 31, 2010

Mamma Gógó

Um daginn fór ég á nýjustu mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Mömmu Gógó. Myndin fjallar um eldri konu, Gógó, sem greinist með Alzheimer og hvernig sjúkdómurinn hefur meiri áhrif á hana og þá í kringum hana eftir því sem hann versnar. Á sama tíma er sonur hennar í fjárhagsvandamálum vegna þess hversu slæma aðsókn nýjasta mmynd hans, Börn náttúrunnar, fær.

Mér fannst myndin ágæt. Kristbjörg Kjeld er góð í hlutverki sínu og það er gaman að fylgjast með Hilmi Snæ leika sögu Friðriks. Það að myndin er byggð á raunverulegri reynslu leikstjórans er áhugavert og mér finnst algjör snilld hvernig hann notar gamlar klippur af Kristbjörgu, af Stöðinni 79, en það fannst mér gera sögu Gógóar raunverulegri. Aftur á móti var óþægilegt að fylgjast með hrörnun hennar, það verður einhvern veginn pirrandi eftir því sem líður á myndina. Ég hefði viljað fylgjast meira með sögu Friðriks. Í heildina á litið er þetta frekar týpísk Friðriks-Þórs-mynd. Ljúfsár, þó með nokkrum fyndnum atriðum og nóg af löngum skotum. Ég verð að segja að varð fyrir dálitlum vonbrigðum þar sem ég var búin að heyra góða hluti af myndinni, en hún er svosem ágæt.

Tuesday, January 5, 2010

The Butterfly Effect

Um helgina horfði ég á The Butterfly Effect. Myndin er leikstýrð af Eric Bress og J. Mackye Gruber og er með einkunnina 7,8 á IMDb.

Myndin fjallar um Evan Treborn (Ashton Kutcher), sem í æsku þjáist af tímabundnu minnisleysi sem virðist tengt alvarlegum áföllum. Þ.e. hann man ekki neitt eftir þeim hræðilegu atburðum sem hann og vinir hans lenda í og verður því ekki fyrir áhrifum af þeim, ólíkt vinum hans sem þurfa að lifa með minningunni. Þegar hann verður eldri uppgötvar hann að hann getur farið aftur í tímann upplifað og breytt! atburðarásinni sem varð þegar hann les dagbækur sínar, en þær hefur hann haldið síðan hann var 7 ára. Hver breyting, sem hann telur vera til hins betra, hefur þó alltaf slæmar afleiðingar og efttir hverja breytingu virðist líf Evans, eða hans nákomnustu alltaf vera í rúst...

Myndin byggist á þeirri hugmynd að hver einasta örsmáa breyting hafi sínar afleiðingar. Dæmi: Fiðrildi blakar vængjum sínum í Asíu og það hrindir af stað keðju atburða sem veldur flóði á Manhattaneyju. Þetta er áhugaverð kenning og gengur alveg upp í myndinni, en það er lítið verið að velta sér upp úr tímaþversögnum og slíku.

Ég hafði ekkert himinháar væntingar áður en ég horfði á myndina. Ashton Kutcher er, að mínnu mati, ekki beint stórbrotinn leikari og í raun finnst mér hann draga myndina aðeins niður. Söguþráðurinn og myndin sjálf í heild kom samt skemmtilega á óvart, gott plott og skemmtilega farið með fiðrildaáhrifin. Ég held bara að myndin hefði verið betri með annan aðalleikara, en það er bara mín skoðun. Hún er þrátt fyrir það í flokki með þeim betri sem ég hef séð nýlega.